Samtök íþrótta og golfvallastarfsmanna á Íslandi eru samtök sem stuðla að fagmennsku hjá félagsmönnum sínum og sér þeim fyrir sem bestum upplýsingum til að auðvelda þeim starf sitt á golf- og íþróttavöllum á Íslandi.

Markmið SÍGÍ eru að viðhalda og bæta gæði golf- og íþróttavalla hérlendis.

SÍGÍ mun standa fyrir fræðslufundum, sýningum, golfmótum og heimsóknum jafnt hérlendis sem erlendis.

Menntun og fagmennska er höfð í hávegi hjá samtökunum og áhersla er á miðlun upplýsinga milli félagsmanna. SÍGÍ mun aðstoða félagsmenn til að sækja og nálgast nám í þeirra fagi og er í boði jafnt hérlendis sem erlendis.

Samtökin kappkosta að halda úti vefsíðu með upplýsingum SÍGÍ og vistunar á aðsendu efni sem nýtist félagsmönnum og verður aðgengilegt á læstum hluta vefsíðunnar.

SÍGÍ munu standa fyrir sýningu á vélum og vörum til viðhalds á golfog íþróttavöllum annað hvert ár í þriðju viku október. Aðildarfélögum verður boðin þátttaka í sýningum eftir stöðu þeirra innan samtakanna. Sýningin er opin fyrir hinn almenna félaga innan samtakanna án endurgjalds.

SÍGÍ leitast við að styrkja og efla samband sitt við önnur samtök erlendis taka þátt í fundum og ráðstefnum sem haldin eru af þeim og standa fyrir hópferðum félagsmanna á sýningar erlendis.

Umhverfis sjónarmið skulu ávallt vera í heiðri höfð hjá samtökunum. Stjórn SÍGÍ mun fylgjast með og upplýsa félagsmenn um umhverfisvitund og góða umgengni um náttúruna. Samtökin hlutast til og taka þátt í rannsóknum og tilraunum sem gerðar eru á golf- og íþróttavöllum hérlendis.