Samtök golfvallastarfsmanna á Íslandi, SGÍ voru stofnuð í maí 1994.  Aðalhvatamaður að stofnun félagsins var Hannes Þorsteinsson, líffræðingur og golfvallahönnuður frá Akranesi.  Sérstakur gestur á stofnfundinum var Carol Borthwick, yfirmaður golfvallafræðideildar Elmwood College í Skotlandi.  Aðdraganda stofnunar félagsins mátti rekja eitt ár aftur í tímann til ársins 1993, þegar nokkrir Íslendingar fóru á sýningu samtaka breskra golfvallastarfsmanna í Harrogate á Englandi.  Fyrsti formaður félagsins var Kári Elíasson, vallarstjóri GKj í Mosfellsbæ.  Með honum í stjórn sátu Haukur Guðmundsson, vallarstjóri GR, sem var gjaldkeri, Ólafur Þór Ágústsson, vallarstjóri hjá GK, sem var ritari, Steinn G. Ólafsson, vallarstjóri á Kiðjabergi og Hannes Þorsteinsson, líffræðingur og í hlutastarfi hjá GSÍ.

Fyrsta verk félagsins var að standa fyrir ferð á BTME, sýningu samtaka breskra golfvallarstarfsmanna í Harrogate í janúar árið 1995.  Mjög sterkar óskir komu fram um að staðið yrði fyrir slíkri ferð á stofnfundi SGÍ.  Þrátt fyrir þær kröfur voru aðeins fimm starfsmenn golfklúbba sem tóku þátt í þessari fyrstu ferð: Kári Elíasson GKj, Haukur Guðmunsson GR, Ólafur Þór Ágústsson GK, Steinn G. Ólafsson GKb og Hákon Sigurðsson, framkvæmdastjóri GKG.  Aðri r voru: Gunnar Haraldsson, torfbóndi, Jóhann Diego, Reykjavíkurborg og Hannes Þorsteinsson.  Í ferðinni hittu þeir svo fyrir íslenska námsmenn í Elmwood College, þá Örn Sölva Halldórsson, Aðalstein Ingvarsson, Rúnar Gunnarsson og Brynjar Sæmundsson.  Margeir Vilhjálmsson kom að auki til liðs við hópinn frá Gleneagles.

Félagið var smátt og lítill fastur kjarni sem tók þátt í starfsemi þess.  Boðað var til eins fræðslufundar á ári og fengnir erlendir fyrirlesarar til þess að gefa þeim sem ekki höfðu tök á að sækja BTME innsýn í heim golfvallafræðinnar.  Meðal þeirra gesta sem komið hafa til landsins í boði félagsins eru George Brown, vallarstjóri á Turnberry í Skotlandi, Eddie Adams, vallarstjóri St. Andrews í Skotlandi, Allan Patterson, vallarstjóri á Castle Course í St. Andrews, Kenny MacKay, vallarstjóri á Belfry í Englandi ofl.

SGÍ var stofnaðili að FEGGA árið 1997, regnhlífarsamtökum fyrir félög golfvallastarfsmanna í Evrópu.  Stjórn FEGGA heimsótti  Ísland árið 1999 og voru haldnir fræðslufundir og tækjasýning í tengslum við heimsóknina.

Árið 1999 að áeggjan Jóhanns G. Kristinssonar, vallarstjóra á Laugardalsvelli var ákveðið víkka starfsem i félagsins og breyta nafni þess en honum hafði verið falið að stuðla að stofnun slíkra samtaka af Mannvirkjanefnd KSÍ.  Félagið fékk nafnið Samtök íþrótta- og golfvallastarfsmanna á Íslandi, SÍGÍ.  Haldin var sameiginleg ráðstefna og tækjasýning þann 23. apríl 1999 undir nafninu „Vorverkin“.

BTME varð fastur punktur í starfsemi félagsins annað hvert ár, en þangað var farið árin 1997,1999,2001 og 2003.  Heimsóknirnar urðu viðameiri í hvert sinn og heimsóttir fótbolta- og golfvellir.  Félagsmenn eignuðust marga vini á Bretlandi og var nokkrum þeirra að auki boðið til Íslands til þess að halda fyrirlestra.  Að auki hefur golfmót SÍGÍ verið árlegur viðburður hjá félagsmönnum og aðsókn í mótið alltaf verið góð.  Samstarfsaðilar félagsins hafa gefið glæsileg verðlaun í mótið og má segja að það hafi verið nokkurskonar uppskeruhátið fyrir félagsmenn.

Árið 2003 var ákveðið að standa ekki fyrir ferð á BTME 2005, en þess í stað ákveðið að skipuleggja ferð á sýningu samtaka bandarískra golfvallastarfsmanna í Orlando í febrúar árið 2005.  Nokkrir félagsmenn SÍGÍ höfðu þá farið á þá sýningu í boði umboðsmanns Jacobsen sláttuvélaframleiðandans á Íslandi og borið þær fréttir heim að BTME, einfaldlega stæðist ekki samanburð við þá miklu sýningu sem þar væri.  Vel tókst til og var leikurinn endurtekinn í ársbyrjun 2008, enda sú þróun komin á BTME að stærstu framleiðendur sýna tækin þar aðeins annað hvert ár.

Lengi var stefnt að útgáfumálum hjá SÍGÍ en lítið hafði orðið um efndir þangað til glæsileg heimasíða var opnuð haustið 2008, samhliða stærstu ráðstefnu og tækjasýningu sem félagið hefur haldið.

Formannalisti:

1994 – 1995 Kári Elíasson

1996 – 2004 Margeir Vilhjálmsson

2005 Brynjar Sæmundsson

2006 – 2007 Margeir Vilhjálmsson

2008 – 2011 Ólafur Þór Ágústsson

2011 – 2013 Ágúst Jensson

2014 Bjarni Þór Hannesson

2015 – 2016 Ágúst Jensson

Frá 2017 Steindór Kristinn Ragnarsson

´