Aðalfundur SÍGÍ 2019
Föstudagurinn 28 febrúar 2020 klukkan 16:00
Haldinn í höfuðstöðvum Knattspyrnusambands Íslands
Mættir voru 21 SÍGÍ að meðtalinni stjórn SÍGÍ

Steindór formaður SÍGÍ, setur fundinn og leggur fram meðlimalista til að tilgreina kjörgengi og kosningarétt, þá kynnti hann dagskrá fundarins.

Næst á dagskrá var kosning fundarstjóra og fundarritara. Fundarstjóri var kosinn Ólafur Þór Ágústsson og fundarritari Hólmar Freyr Christiansson.

Fyrsta verk fundarstjóra var að bjóða Steindór aftur velkominn upp til þess að fara yfir skýrslu stjórnar. Skýrslan verður gerð aðgengileg meðlimum SÍGÍ hvort sem það verður með tölvupósti eða á heimasíðu.

Næst fór Jóhann Kristinsson gjaldkeri félagsins yfir reikningana fyrir hönd stjórnar. Tekjur af félaginu voru 2.369.302kr, Gjöld voru 2.527.645kr og var tap af rekstrinum upp á -158.343kr.

Í fyrsta sinn í sögu félagsins bað fundarstjóri fundarmenn að rísa úr sætum og minnast fallinna félaga sem létust á árinu. Þeir tveir sem kvöddu okkur á árinu voru, Jón Magnússon sem áður var vallarstjóri Laugardalsvallar og heiðursfélagi í SÍGÍ og Steinar Páll Ingólfsson sem hafði unnið á mörgum golfvöllum á landinu má þar nefna Golfklúbburinn Keilir og Golfklúbbur Ísafjarðar.

Umræða fór síðan fram um skýrslu stjórnar og reikningana. Jóhann lagði til að hækka félagsgjaldið á einstaklingana upp í 12.500kr. Kom þá spurning frá fundarstjóranum sjálfum afhverju ekki væri hækkað á golfklúbbanna. Hækkunin mun einnig koma á golfklúbbana en ekki jafn skörp og þarna bæði vegna þess að menn klúbbarnir eru sumir að greiða fyrir fleiri en þeir eru að nota og verður rukkunin með hliðsjón af því. Hækkunin var samþykkt samhljóða.

Næsti dagsrárliður var kosning stjórnar. Tilnefning stjórnar var að bjóða fram óbreytta stjórn frá fyrra ári og var það samþykkt með lófaklappi.

Stjórn lagði einnig til að stofnuð yrði ferða- og ráðstefnunefnd og tóku fundarmenn einnig vel í það og samþykktu með lófaklappi.

Þá var komið að liðnum önnur mál

Jóhann fór yfir að bæta þyrfti heimasíðuna og hvernig stjórn myndi taka skref á þessu ári til þess að virkja síðuna betur og auka traffík um hana. Vonast stjórn til þess að það verði betri nýting á síðunni á komandi árum.

Kosning vallarstjóra ársins er árlegur viðburður. Áður en úrslit voru kunngerð, byrjaði Jóhann á því að tala um slæmt kjörgengi sem er eitthvað sem við sem samtök þurfum að laga. Það voru 13 sem kusu í golfhlutanum og 6 manns í fótboltahlutanum.

Umræðan um þetta mál var fjörleg og komu fram góðar hugmyndir sem stjórn þarf að hafa í huga þegar næsta kostningunni verður. Kristinn Jóhannsson lagði til að kosningunni yrði flýtt og höfð að hausti. Guðbjartur Ásgeirsson lagði til að hafa kosninguna á pappír og jafnvel kjósa í SÍGÍ golfmótinu eða á einhverjum viðburði þar sem nægilega margir mæta, þrátt fyrir að kosningin yrði ekki opinberuð fyrr en á aðalfundi. Þá kom fram hugmynd um hvort að hægt væri að búa til fagráð um kosninguna líkt og gert er í Eurovision og á Óskarsverðlaununum voru menn að mestu sammála um að þetta væri auðveldara í framkvæmd á golfvöllunum.

Þá kom að því að fara yfir hvernig kosningin fór. Í fjórða sæti í golfhlutanum var Tryggvi Ölver Gunnarsson hjá Golfklúbbnum Oddi. Í þriðja sæti var Ellert Þórarinsson hjá Golfklúbbi Brautarholts. Í öðru sæti var Haukur Jónsson hjá Golfklúbbnum Keili. Vallarstjóri ársins var Darren Farley hjá Golfklúbbi Reykjavíkur í Grafarholti.

Í fótboltahlutanum var það Magnús Valur Böðvarsson hjá Knattspyrnufélagi Reykjavíkur sem var í þriðja sæti. Í öðru sæti var Kristinn V. Jóhannsson á Laugardalsvelli. Vallarstjóri ársins var Sigmundur Pétur Ástþórsson hjá Fimleikafélagi Hafnarfjarðar.

Þar sem hvorki Darren né Sigmundur gátu mætt á fundinn var tekin sú ákvörðun að afhenda verðlaunin á næstu ráðstefnu SÍGÍ þann 10. mars næstkomandi.

Fundargestir voru síðan beðnir að sitja áfram þar sem Edwin Roald ætlaði að halda fyrirlestur um Carbon Par verkefnið sitt að fundi loknum

Nýkjörinn formaður, Steindór Ragnarsson, sleit fundinum klukkan 16:52