Lög Samtaka íþrótta – og golfvallastarfsmanna á Íslandi (SÍGÍ)

1. gr.

Samtökin heita Samtök íþrótta – og golfvallastarfsmanna á Íslandi (SÍGÍ).  Heimili þeirra er í Reykjavík.  Samtökin eru sérstök deild innnan vébanda Golfsambands Íslands (GSÍ) og Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) og hlíta lögum þeirra, reglugerðum og samþykktum og ÍSÍ að því er starfsemi alla varðar.

2. gr.

Tilgangur og markmið samtakanna er að efla og auka menntun meðlima sinna, að efla samskipti þeirra og samráð, að koma upp safni fræðsluefnis og upplýsinga um viðhaldsvinnu á íþrótta- og golfvöllum, að vera ráðgefandi aðili fyrir íþróttavelli og golfklúbba um viðhaldsvinnu, að skapa sem best skilyrði fyrir golf og aðrar íþróttir sem stundaðar eru á grasvöllum.  Til að ná tilgangi sínum skulu samtökin gangast fyrir fræðslufundum, fræðslu-og kynningarferðum, námskeiðum, sýningum, golfmótum fyrir meðlimi og útgáfu fræðsluefnis í samvinnu við GSÍ og KSÍ.

3. gr.

Um inngöngu í samtökin skal sótt skriflega.  Stjórn SÍGÍ ákvarðar inntöku nýrra meðlima.  Styrktarmeðlimir geta orðið einstaklingar, golfklúbbar, félög og fyrirtæki sem hafa áhuga á markmiði samtakanna og sem stjórn SÍGÍ samþykkir.

Flokkar meðlima : Vallarstjórar, vallarstarfsmenn, fyrrverandi vallarstjórar/starfsmenn. Flokkar styrktarmeðlima: Vallarnefndir, vallarnefndarmenn, aðrir áhugamenn, fyrirtæki, golfklúbbar/félög/samtök.

Aðalfundur ákveður árgjöld næsta starfsárs að fenginni tillögu stjórnar sbr. 9. gr.  Innheimta árgjalda er heimil frá 15. janúar en eindagi er 1. maí.

4. gr.

Stjórn SÍGÍ er heimilt að útnefna heiðursmeðlimi fyrir framúrskarandi störf að málefnum sem falla að markmiðum samtakanna.  Heiðursmeðlimir skulu vera undanþegnir greiðslu árgjalda ævilangt en teljast þó aðalmeðlimir með öll réttindi og skyldur samkvæmt lögum þessum.

Heiðursviðurkenningar/merki veitir stjórn SÍGÍ samkvæmt reglugerð sem aðalfundur samþykkir.

5. gr.

Meðlimir SÍGÍ sem greitt hafa árgjald fá félagsskírteini SÍGÍ, rétt til að sitja aðalfund SGÍ sbr. 8. gr., fá sent fræðsluefni frá SÍGÍ, rétt til að sækja fræðslufundi, fræðsluferðir, námskeið, sýningar og mót sem SÍGÍ gengst fyrir og hafa aðgang að öllum þeim faglegu upplýsingum sem SÍGÍ gefur út, aflar og geymir.

Stjórn SÍGÍ er heimilt að segja þá meðlimi úr samtökunum sem ekki standa skil á árgjöldum eða sem vinna á móti markmiðum og starfsemi SÍGÍ.

6. gr.

Starfs-og reikningsár samtakanna er frá 1. janúar til 31. desember.

7. gr.

Stjórn samtakanna skipa 5 menn; formaður, ritari, gjaldkeri og tveir meðstjórnendur.  Á aðalfundi skal formaður kosinn til eins árs, aðrir stjórnarmenn eru kosnir til tveggja ára í senn, þannig að tveir eru kosnir annað árið og tveir hitt.  Stjórnarmenn sem þannig eru kosnir skipta með sér verkum eftir stjórnarkjör.  Ennfremur skal á aðalfundi kjósa tvo varamann í stjórn og tvo skoðunarmenn reikninga til eins árs í senn. Varamenn skulu sitja stjórnarfundi með málfrelsi og tillögurétt.

Stjórnin skipar í nefndir og aðrar trúnaðarstöður og setur þeim reglugerðir eða starfslýsingar sem aðalfundur samþykkir.

Stjórn SÍGÍ fer með málefni samtakanna milli aðalfunda og kemur fram fyrir þeirra hönd gagnvart GSÍ, KSÍ og öðrum aðilum.

8. gr.

Aðalfundur er æðsta úrskurðarvald í málefnum samtakanna.  Hann skal haldinn í febrúar ár hvert.  Aðalfund skal boða bréflega með minnst fjórtán daga fyrirvara.  Aðra fundi skal boða með minnst sjö daga fyrirvara.  Í aðalfundarboði skal tilgreina dagskrá og tillögur um lagabreytingar.  Tillögur um lagabreytingar skulu hafa borist stjórninni fyrir 15. desember.

Meðlimir einir hafa kosningarétt og kjörgengi á aðalfundi en styrktarmeðlimir hafa fullt málfrelsi og tillögurétt. 

9. gr.

Á aðalfundi skulu mál tekin fyrir í þeirri röð sem hér segir:

  1.  Stjórn leggur fram meðlimalista sem tilgreini kjörgengi og kosningarétt.

  2.  Dagskrá aðalfundarins lögð fram.

  3.  Kosning fundarstjóra og fundarritara.

  4.  Skýrsla stjórnar lögð fram.

  5.  Lagðir fram endurskoðaðir reikningar.

  6.  Umræða um skýrslu stjórnar og reikninga.  Reikningar bornir undir atkvæði.

  7.  Lagðar fram tillögur um breytingu laga og reglugerða og þær bornar undir atkvæði.

  8.  Stjórn leggur fram tillögu um árgjöld og þær bornar undir atkvæði.

  9.  Stjórn leggur fram fjárhagsáætlun næsta starfstímabils.

10.  Kosning stjórnar og varamanns í stjórn skv. 7. gr.

11.  Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga skv. 7. gr.

12.  Önnur mál.

10. gr.

Aðalfundur er löglegur og ályktunarhæfur um öll málefni SÍGÍ sé löglega til hans boðað.  Skal þar ráða einfaldur meirihluti atkvæða viðstaddra aðalmeðlima, nema annað sé ákveðið.  Kosningarétt og kjörgengi hafa aðalmeðlimir sem fullnægja 3. grein þessara laga.

11. gr.

Lögum þessum má ekki breyta nema á löglega boðuðum aðalfundi. 2/3 hluta atkvæða viðstaddra aðalfélaga þarf til að samþykkja breytingar á lögum þessum.

12. gr.

Þannig samþykkt á stofnfundi SGÍ  23. maí 1994, með breytingum á aðalfundi þann 15. mars 2001.

Breytingar á aðalfundi 28. janúar 2017 og á aðalfundi 16. febrúar 2018

Reglugerð um veitingu viðurkenningarmerkja SÍGÍ.

 

1. grein

Stjórn félagsins getur við hátíðleg tækifæri eða þegar sérstök ástæða þykir til, veitt viðurkenningarmerki fyrir störf í þágu félagsins og eða íþróttahreyfingarinnar í heild sinni.

2. grein

Viðurkenningarmerki félagsins eru eftirtalin:

1.  Gullmerki SÍGÍ veitist fyrir 20 ára starf fyrir félagið.  Þeir sem hljóta Gullmerki SÍGÍ hljóta einnig nafnbótina Heiðursfélagar SÍGÍ.

2.  Silfurmerki SÍGÍ veitist fyrir 15 ára starf fyrir félagið. Auk þess er stjórn heimilt að veita merkið öðrum, td. erlendum aðilum, við sérstök tilefni.

3. grein

Við ákvörðun um veitingu viðurkenningarmerkja nægir samþykki einfalds meirihluta innan stjórnar SÍGÍ.

Samþykkt á aðalfundi SÍGÍ 16. febrúar 2018.