Jón Guðmundsson ræðir nýtekið jarðvegssýni á Svarfhólsvelli við Gunnar Marel Einarsson, vallarstjóra hjá Golfklúbbi Selfoss, og Maríu Svavarsdóttur, samstarfskonu sína hjá LBHÍ. Mynd: Edwin Roald.

Carbon Par er rannsóknar- og nýsköpunarverkefni í eigu íslenska fyrirtækisins Eureka Golf, sem unnið er í samstarfi við Landbúnaðarháskóla Íslands og nýtur fjárhagslegs stuðnings frá bæði innlendum og erlendum aðilum, ásamt eigin framlagi verkefniseiganda. Í því er metinn kolefnisforði allra golfvalla innan vébanda Golfsambands Íslands.

Með því er reiknað með að einnig geti komið fram kærkomnar upplýsingar um bindingu kolefnis í slegnu grasi, sem rannsóknir gefa til kynna að aukist umtalsvert eftir því sem notkun nýframkominna, rafknúinna og sjálfvirkra sláttuvéla verður almennari. Með þeim verður m.a. raunhæft að slá gras nógu ört til að brottnám slægjunnar verði óþarft. Í stað þess að fjarlægja hana, með tilheyrandi kostnaði, er henni leyft að brotna niður í sverðinum og með því, væntanlega, stuðla að aukinni uppbyggingu kolefnis í jarðvegi.

Slíkur grassláttur hefur tíðkast á langstærstum hluta golfvalla í áratugi. Golfvellir eru því taldir framúrskarandi vettvangur rannsókna á kolefnisstöðu grasflata, sem finnast í stórum stíl á flugvöllum, meðfram öðrum samgöngumannvirkjum, í almennings- og einkagörðum og á íþróttasvæðum.

Auk þess að gera Ísland að fyrstu þjóð heims sem metur kolefnistöðu allra golfvalla sinna, þá dregur rannsóknin fram upplýsingar, sem ekki liggja fyrir í dag, og nýtast sveitarfélögum, stofnunum, fyrirtækjum, almenningi og hluta íþróttahreyfingarinnar til að draga úr kostnaði og reikna betur með grænum svæðum í loftslagsbókhaldi.

Fyrir þá sem vilja meiri fróðleik um verkefnið má smella á linkinn hérna að neðan, sem birtist á heimasíðu STERF.

Carbon Par